Hvað er NORNA?

Norræna samvinnunefndin um rannsóknir í nafnfræði (NORNA)

NORNA er félag fræðimanna á Norðurlöndunum sem fást við nafnfræðirannsóknir.

Nefndin var stofnuð 1971 og er skipuð sjö meðlimum (ásamt varamönnum) frá eftirtöldum löndum: Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Markmið nefndarinnar er að stuðla að rannsóknum í nafnfræði og hvetja til samstarfs meðal norrænna fræðimanna á sviðinu. Nefndin stendur fyrir ráðstefnum um nafnfræði sem venjulega eru haldnar á fimm ára fresti. Þess á milli kemur nefndin að skipulagi málstofa um afmörkuð efni sem að jafnaði eru haldnar árlega. Fyrirlestrar af ráðstefnum og málstofum eru venjulega gefnir út í ritröðinni NORNA-rapporter.

Á vef nefndarinnar er haldin leitarbær ritaskrá um nafnfræði sem á eru rit og greinar eftir fræðimenn á Norðurlöndunum, sem út hafa komið frá 2013, og er skráin uppfærð reglulega. Hér á vefnum birtast fréttir frá Norðurlöndunum um viðburði, nýjar útgáfur o.fl. á sviði nafnfræði og hér er einnig að finna fræðimannaskrá fyrir nafnfræði með nöfnum og netföngum fræðimanna ásamt upplýsingum um rannsóknar- og áhugasvið.